Erindi Aðalsteins Sveinssonar á íbúafundi 19. mars 2007
Hvers vegna var skipulags- og byggingafulltrúa Flóahrepps sagt upp og tekið upp samstarf við uppsveitir Árnessýslu á þessu sviði?
Erindi Aðalsteins Sveinssonar á íbúafundi 19. mars 2007
Hvers vegna var skipulags- og byggingafulltrúa Flóahrepps sagt upp og tekið upp samstarf við uppsveitir Árnessýslu á þessu sviði?
Faglegar forsendur:
Bæta þarf aðgengi og skáningu allra gagna embættisins.
Það eru kjörnir fulltrúar í skipulags- og bygginganefndum og í sveitastjórnum sem bera ábyrð á þeim ákvörðunum sem teknar eru. Þeir þurfa því að hafa aðgang eða afrit af öllum gögnum sem liggja til grundvallar þeirri ákvörðun sem tekin er. Þetta á ekki bara við um skipulagsuppdrætti og teikningar, heldur líka allar greinagerðir sem þeim fylgja, álit og umsagnir. Þeir þurfa að geta séð hvaða afgreiðslu málin hugsanlega hafa fengið áður hjá sveitarfélaginu og hvernig sambærileg mál hafa verið afgreidd. Þetta á ekki síður við þegar nýtt fólk að loknum kosningum kemur til starfa og þegar varamenn eru kallaðir til. Þetta getur verið umtalsvert magn upplýsinga og ekki einfalt mál að halda utan um og verður ekki gert nema með skipulögum hætti. Tölvuvæðing embættisins getur auðveldað þetta mjög og sparað tíma og peninga bæði við skráningu gagna og miðlun til þeirra sem þurfa á þeim að halda..
Taka þarf upp skráningu í samræmdan gagnagrunn eins og önnur sveitarfélög hafa tekið upp.
Nágrannasveitarfélögin hér í kring hafa tekið upp skráningu fasteigna í gagnagrunnin ,,GRANNA” Upplýsingar úr þessum grunni geta verið aðgengilegar öllum á netinu í gegnum heimasíðu viðkomandi sveitarfélags. Í þessum grunni eru allar jarðir, jarðapartar og lóðir í viðkomandi sveitarfélagi kortlagðar. Hægt er að sjá upplýsingar um allar byggingar eins og þær eru skráðar hjá Fasteignamati. Þetta eru upplýsingar eins og aldur bygginga, byggingaefni og fasteignamat viðkomandi eignar. Þessi grunnur nýtist vel, bæði þeim sem koma að þessum málum hjá stjórnsýslu sveitarfélaganna og þeim fjölmörgu sem eru að velta fyrir sér einhverjum framkvæmdum og uppbyggingu. Þetta veitir einnig aðhald um að þessar upplýsingar séu réttar á hverjum tíma.
Taka upp bein tölvusamskipti við Fasteignamat Ríkisins og e.t.v fleiri opinbera aðila.
Samskipti við stofnanir eins og Fasteignamat Ríkisins er mjög mikilvægt að sé með öruggum og skipulögðum hætti. Það er stórt fjárhagslegt atriði fyrir sveitarfélagið og ekki síður nauðsynlegt gagnvart því að jafnræðisreglu sé gætt við fasteignaeigendur hér, að skráning í fasteignamatið sé rétt. Því miður er það staðreynd að brotalamir hefa verið á því. Sveitarfélagið verður að geta sýnt fram á að ekki standi upp á það í þessum efnum og hafa virkt eftirlit með því að Fasteingamatið standi undir sínum skyldum. Auðvelt er að fylgjast með hvaða upplýsingar og hvenær þær fara til Fasteingamatsins frá sveitarfélaginu ef notaðir eru þau tölvusamskipti sem flest sveitarfélög hér í kring hafa tekið upp. Þetta er nauðsynlegt ef sveitarfélagið á að geta staðið í lappirnar gagnvart þessari stofnun. Við getum ekki gert þær kröfur sem önnur sveitarfélög eru að gera í sínum samskiptum við þá ef við eru ekki með öll okkar mál á hreinu.
Tryggt þarf að vera að allir þeir sem standa vilja í framkvæmdum í sveitarfélaginu fari eftir þeim lögum sem gilda um skipulags- og byggingamál.
Um skipulags- og byggingamál gilda ákveðin lög og reglugerðir. Sveitarfélög eru ábyrg fyrir því að eftir þeim sé farið. Þarna skiptir í raun ekki máli hvort um stórfyrirtæki eins og Landsvirkun eða Flugfjarskipti er að ræða, íbúa í sveitarfélaginu eða sumarhúsaeiganda. Allar afgreiðslur og ákvarðanir að hálfu sveitarfélagsins verða að eiga stoð í lögum. Í skipulagslögum segir að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögum sem þýðir að sveitastjórnir á Íslandi taka ákvörðun um það í sínu aðalskipulagi til hverra nota land er tekið og hvernig það er útfært í deiliskipulagi. Þær geta hins vegar ekki tekið þessar ákvarðanir nema leita álits almennings áður. Þannig eiga lögin að tryggja samráð við íbúa áður en til ákvörðunar og framkvæmda kemur. Þetta er mikilvægt að hafa í huga ef við viljum hafa einhverja stjórn á þeirri uppbyggingu og starfsemi sem hér kemur. Það hafa sveitastjórnarmenn úr öðrum sveitarfélögum og aðrir sem að skipulagsmálum hafa komið bent mér á, að vegna þess að málin hafa ekki verið unnin rétt og ekki fyllsta jafnræðis gætt, getur það eyðilagt mál sem almennur vilji er þó að beita sér í. Af þessum sökum hafa menn ekki getað haft þá stjórn á sínum skipulagsmálum sem menn þó vildu. Í þessu sambandi er líka rétt að benda á að stór hluti þeirra sem hér vilja byggja eða framkvæma á einhvern hátt eru aðilar utan sveitarfélagsins. Ef við sem heimamenn ætlum að hafa stjórn á uppbyggingu í okkar heimasveit og hafa áhrif á hvaða starfsemi verði hér rekin í framtíðinni verðum við að hafa þessi mál í lagi. Ég er alls ekki að tala um að hér eigi að gilda eitthvað strangari reglu en annarsstaðar heldur bara að benda á að verklag í þessu efni er bundið í lögum sem allsstaðar gilda á landinu.
Tryggja þarf að upplýsingaskyldu stjórnvalda sé vel sinnt og að ekki séu gefnar misvísandi leiðbeiningar til aðila sem hér vilja farmkvæma.
Mikilvægt er að fólk sem hér vill framkvæma fái réttar og greinagóðar upplýsingar um hvernig það eigi að standa að málum starx í upphafi. Leggja þarf mat á umsóknir og þau gögn sem berast embættinu strax og leiðbeina mönnum með úrbætur ef þörf er á. Þetta á ekki síst við vegna skipulagsmála þar sem það ferli er í raun æði langt og tekur í flestum tilfellum mun lengri tíma en fólk gerir sér grein fyrir. Einnig getur þurft að fylga þeim ýmis álit og umsagnir hinna ýmsu stofnanna áður en hægt er að taka það fyrir í skipulagsnefnd. Vinna þarf málin það vel fyrir fundi í bygginga- og skipulagsnefndum að hægt sé að afgreiða þau og senda til sveitastjórnar til ákvörðunnar. Það á að vera sjálfsagt markmið að allir fá sem fljótustu úrlausn sinna mála. Tölvusamskipti geta auðveldað þessa vinnu mikið og sparað embættinu bæði tíma og peninga. Þau geta einnig í mörgum tilfellum auðveldað samskipti við þá sem eru að óska eftir afgreiðslu sinna mála. Tilvik hafa komið upp þar sem þetta hefur ekki verið sem skildi og framkvæmdir því tafist. Áætlanir fólks um framkvæmdir hafa ekki gengið upp og stöðva hefur þurft framkvæmdir vegna þess að tilskilin leyfi eru ekki fyrir hendi.
Útgáfa stofnskjala verði á hendi embættisins.
Eðlilegt er að útgáfa allra stofnskjala í sveitarfélaginu sé á hendi embættisins. Á síðasta ári hefur orðið gífurleg fjölgun á skiptingu jarða og stofnun nýrra eigna í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að þegar lóðablað hefur verið afgreitt sé eignin stofnuð með útgáfu á stofnskjali. Undanfarið hefur vinna við þessa útgáfu verið keypt hjá verkfræðistofu í hvert og eitt skipti.
Tekin verði upp notkunn á GPS mælitækni að hálfu embættisins.
Mörk jarða og lóða eru í dag tilgreind með GPS puntum. Byggingareitir eru yfirleitt einnig þannig afmarkaðir. Því er mikilvægt að embættið eigi slík mælitæki og geti notað það við að útsetja byggingareiti og staðsetja byggingar. Notkun á þessari tækni eykur nákvæmni og öryggi í mælingum og getur komið í veg fyrir mistök. Þetta getur komið sér vel á svæðum eins og hér, þar sem byggðin er smátt og smátt að þéttast og forsendur og skipulag að taka breytingum. Undanfarið hefur þessi þjónusta verið keypt hjá verkfræðistofu í einhverjum tilfellum.
Ekki verður slegið af kröfum um eftirlit með byggingaframkvæmdum og áhersla er lögð á að því sé sinnt eins og lög gera ráð fyrir.
Það er á ábyrgð sveitarfélaga að ákvæði laga um eftirlit með byggingaframkvæmdum sé framfylgt. Því hefur verið haldið fram að eftirlit með byggingaframkvæmdum verði mun lakara en það hefur verið og ekki fullnægandi eftir þessar breytingar. Það eru ekki neinar haldbærar vísbendingar um að þessi mál hafi ekki verið í lagi í uppsveitum Árnessýslu og alls ekki lakari en víðast hvar á landinu Það er ljóst að byggingagallar geta orðið á ábyrð sveitarfélagsins ef úttektir einstakra verkþátta eru ekki með fullnægandi hætti. Ábyrgð byggingastjóra og byggingameistara er samt sem áður ekkert minni. Byggingareglugerð segir til um hvernig þessu skal háttað og gerir grein fyrir þeim samskiptum sem byggingastjórar og byggigafulltrúar þurfa að hafa á framkvæmdatíma. Það er auðvitað mikilvægt að fylgst sé vel með af hálfu sveitastjórnar að þessi mál séu í lagi.
Þrátt fyrir samvinnu við önnur sveitarfélög í skipulagsmálum er hið eiginlega skipulagsvald áfram í höndum sveitastjórnar
Þó sveitarfélög hafi með sér sameiginlegan skipulagsfulltrúa og byggingafulltrúa færist hin endanlega ákvöðrun eða vald ekki út úr sveitarfélaginu. Sveitastjórnir í hverju sveitarfélagi verða eftir sem áður að taka allar þær ákvarðanir sem taka þarf og bera ábyrgð á þeim.
Fjárhagslegar forsendur:
Kostnaður við skipulags- og byggingafulltrúa embættið á síðasta ári
Alls var greitt á síðasta ári samkvæmt verktakareikningi kr. 4.743.709,- fyrir utan VSK. fyrir skipulags- og byggingafulltrúa embættið á síðasta ári. Inn í þeirri upphæð eru laun, 22.000 km akstur og kostnaður vegna síma og aðstöðu. Við þessa upphæð má bæta kostnaði við aðra aðkeypta þjónustu s.s. útgáfu stofnskjala og mælinga með GPS tækjum. Kr. 769.733,- og kostnaði við auglýsingar kr. 86.670,- alls er þetta kostnaður upp á kr.5.600.112,- Tekjur af byggingaleyfisgjöldum, sem eru þjónustugjöld til að mæta þessum kostnaði voru á árinu kr. 1.695.258,- Sveitarfélagið er því að geiða með þessu kr. 3.904.854,-
Áætlaður kostnaður Flóahrepps vegna samstarfs við uppsveitir
Skrifstofa skipulag- og byggingafulltrúanna hjá uppsveitum Árnessýslu er rekið sem sjálfstæð stofnun allra sveitarfélaganna sem að henni standa. Allar tekjur af byggingaleyfisgjöldum á öllu svæðinu fara beint í reksturinn óháð þvi úr hvaða sveitarfélagi þær koma. Stefnt er að því að tekjurnar standi undir kostnaði við reksturinn. Á síðasta ári voru innheimtar tekjur alls kr. 40.945.521,- Þar af koma vegna framkvæmda í Grímsnes- og Grafningshreppi kr. 24.584.807,- og vegna framkvæmda í Bláskógabyggð kr. 10.738.253,-. eða rúmlega 35 millj. úr þessum tveimur sveitarfélögum. Á þessu ári er gert ráð fyrir eitthvað meiri tekjum m.a. vegna aukinnar gjaldtöku við útgáfu framkvæmdaleyfa og þjónustu skipulagsfulltrúa. Ef tekjur ná ekki að standa undir kostnaði verður honum deilt út á sveitarfélögin eftir fjölda teikninga 25%, fjölda byggingaleyfa 25% og fjölda mála fyrir skipulagsnefnd 50%. Miðað við fjölda mála á síðustu árum má reikna með að hlutur Flóahrepps í þessu samstarfi verði milli 11 og 13 %. Sem þýðir að rekstrarhallinn þarf að verða að minnsta kosti 30 millj. til þess að Flóahreppur þurfi að greiða svipaða upphæð með þessarri starfsemi og gert var á síðasta ári. Menn gera sér aftur á móti nokkuð raunhæfar væntingar að markmiðið um hallalausan rekstur verði að ræða.
Hversvegna að gera þessar breytingar núna.
Miklar breytingar á landnotkun.
Undanfarin ár og kannski sérstaklaga á síðasta ári hefur orðið gífuleg fjölgun á umsóknun um skiptingu jarða og breytta landnotkun. Ásókn bæði einstaklinga og fyrirtækja sem ekki eru búsett eða starfandi í sveitarfélaginu í land hefur aukist og verslun með land er orðin mun meiri. Í mörgun tilfellum er hugmyndin að koma upp einhverri starfsemi eða skipuleggja einhverja byggð. Þetta getur á margan hátt verið hagstætt fyrir sveitarfélagið og íbúa þess en kallar samt á vönduð vinnubrögð í skipulagsmálum. Ljóst er að ekki hafa allir sömu sýn á hvað eigi að gera og hagsmunir allra fara ekki saman. Ég reikna með að þessi þróun haldi áfram og sé í raun rétt að byrja. Því er ekki annað skynsamlegt en að undirbúa sig undir það að skipulagsmál verði mun fyrirferðameiri í stjórnsýslu sveitarfélagsins en þau hafa verið. Það er nauðsynlegt bæði til þess að við getum haft þá stjórn á skipulagi í sveitinni sem við viljum í framtíðinni og líka til þess að málaflokkurinn taki ekki til sín meira fé en nauðsynlegt er.
Sameining sveitarfélaganna.
Eitt af opinberum markmiðum stjórnvalda með sameiningu sveitarfélaga er að stuðla að endurskipulagningu og þróunn á þjónustu og stjórnsýslu minni sveitarfélaga. Til þessa er veitt ákveðnum fjármunum sem ný sameinuð sveitarfélög geta sótt um að fá til verkefna á þessi sviði. Flóahreppur hefur fengið og er að fá sérstakt fjármagn úr þessum potti. Þar höfum við möguleika á að fá fjármagn núna á fyrstu árum eftir sameinigu. Það minnkar síðan eftir því sem fjær dregur og verður ekkert að loknu þessu kjörtímabili. Í þessu sambandi erum við að taka hér upp breytta starfhætti frá því sem verið hefur. Við erum m.a. að að fjárfesta í tölvukerfum og tölvum fyrir stjórnsýsluna og aðlaga vinnubrögð að beyttum tímum. Það eru engin rök sem mæla með því að embætti skipulags- og byggingafulltrúa fylgi ekki með þessarri þróun núna strax .
Samflot með sveitarfélögum í nágrenninu
Uppsveitir Árnessýslu hafa haft með sér samstarf um byggingafulltrúa til fjölda ára og hefur það samstarf verið mjög farsælt. Nokkuð ör þróun hefur samt orðið nú á allra síðustu árum í þessum málum. Það er ekki nema rúmt eitt kjörtímabil síðan ráðinn var sameiginlegur skipulagsfulltrúi og er það samhjóða álit þeirra sem ég hef rætt við að það hafi verið mjög nauðsynlegt. Embættið hefur fyrir ekki löngu eignast GPS tæki og tileinkað sér notkunn á því. Það var bara á síðasta ári sem tekin var ákvörðun um að taka upp skráningu í gagnagrunnin ,,GRANNA” en Árborg og Hveragerði höfðu áður gert það. Það er sannfæring mín að það sé bæði skynsanlegt og best, fyrst kostur er á því að taka þátt í þessari þróun með uppsveitarmönnum frekar en að sitja eitt sveitarfélaga hér eftir eða ætla að reyna að taka þátt í þróuninni eitt upp á eigin spýtur.